Slembivalið borgaraþing

Að mati Öldu þarf að draga úr flokksræði, t.d. með því að innleiða slembivalin borgaraþing (Citizens assembly) þar sem almennum borgurum gefst tækifæri til að ræða mál sín á milli og taka ákvörðun um stefnu í þeim málum sem þingin ræða.

Á borgaraþingi fá slembivaldir kjósendur, yfirleitt á bilinu 50 til 150 talsins, bæði aðstöðu og tíma til að ræða flókin og erfið viðfangsefni. Með slembivalinu er tryggt að fulltrúar á borgaraþingi endurspegli samsetningu þjóðarinnar, t.d. út frá aldri, kyni og búsetu. Þannig er tryggt að fulltrúarnir endurspegli þá ólíku hagsmuni og þau ólíku sjónarmið sem eru til staðar í samfélaginu og með aðferðum rökræðulýðræðis er tryggt að allir hafi jafna möguleika til að hafa áhrif og koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Slembivalin borgaraþing hafa m.a. verið notuð með góðum árangri á Írlandi, þar sem þau hafa skilað góðum og vönduðum tillögum, m.a. um úrbætur á stjórnarskrá landsins, sem síðar hafa verið samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fjöldamörg borgaraþing hafa verið haldin í Evrópu á síðustu árum, til að mynda á Englandi, Skotlandi, Belgíu og Frakklandi þar sem fjallað hefur verið með góðum árangri um flókin úrlausnarefni, svo sem stjórnarskrárbreytingar, loftslagsmál og lýðræðisskipulagið sjálft.

Meginástæðan fyrir velgengni borgaraþinga er að þau endurspegla þannig skoðanir almennings sem hefur haft tækifæri og aðstöðu til þess að setja sig inn í málin og ræða þau við samborgara sína á jafningjagrundvelli við kjöraðstæður. Þessi tegund rökræðulýðræðis er möguleg vegna slembivalsins, þar sem þátttakendur í borgaraþingum eru þar á eigin forsendum en ekki sem fulltrúar tiltekins stjórnmálaflokks með öllum þeim böggum sem því fylgir, þurfa ekki að sækjast eftir endurkjöri og því ekki bundnir tilteknum hópi kjósenda eða hagmunaöflum.

Alda leggur höfuðáherslu á að rétt sé staðið að borgaraþingum. Mikilvægt er að vandað sé til undirbúnings og mikil þekking hefur byggst upp á síðustu árum um það. Hinsvegar er ekki nóg að undirbúa borgaraþing. Vanda þarf val á málefnum og skilgreina með afgerandi hætti hlutverk þeirra. Borgaraþing á fyrst og fremst að halda um mikilvæg stefnumál. Reynslan hefur sýnt að mikilvæg er að fyrirfram sé skýrt í hvaða farveg tillögur þingsins fara eftir að því lýkur og því ferli ljúki helst með þjóðaratkvæðagreiðslu.