Lýðræðisleiðin

Bráðum verða liðin 40 ár frá því að kvótakerfi var komið á í sjávarútvegi. Á þessum tíma hefur kerfið skapað mikil verðmæti og styrkt vernd fiskistofna en einnig valdið löngum og djúpstæðum deilum um byggðaþróun og skiptingu auðlindaarðsins. Þá hefur opinberast á síðustu misserum hvernig íslensk útgerðarfélög hafa skaðað orðspor þjóðarinnar á alþjóðavettvangi og ógnað blaðamönnum og starfsfólki opinberra eftirlitsstofnana. 

Nú er svo komið að einungis 14% aðspurðra segjast ánægð með núverandi útfærslu kvótakerfisins og verður því vart unað lengur við óbreytt ástand. En vegna hinna dreifðu hagsmuna almennings og ólíkra hugmynda um umbætur, andspænis miklum og skýrum hagsmunum útgerðanna, er ólíklegt að breytingar verði gerðar á kerfinu – nema að almenningur komi sér saman um tillögur að breytingum.

Lýðræðisfélagið Alda telur að móta megi slíkar tillögur í tveimur skrefum á komandi kjörtímabili, fyrst með óháðri úttekt á kerfinu, kostum þess, göllum og mögulegum úrbótum og síðan með vönduðu þátttökulýðræðisferli í kjölfarið. Þátttökulýðræðisferlið hæfist á opnu umsagnaferli um niðurstöður úttektarinnar en síðan tæki slembivalið borgaraþing þær til rækilegrar umfjöllunar. Þingið myndi afgreiða tillögu að breytingum á kvótakerfinu sem síðan yrðu lagðar fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu og þaðan til samþykktar á Alþingi. 

Til að þessi leið verði fær þurfa stjórnmálaflokkarnir nú í aðdraganda kosninga að gefa fyrirheit um að þeir séu reiðubúnir til að hefja slíka vegferð að loknum kosningum í haust. Þannig yrðu hagsmunir fjöldans teknir fram yfir þrönga sérhagsmuni útgerðarinnar.    

Afstaða framboða til lýðræðisleiðarinnar

Möguleg tímalína lýðræðisleiðarinnar

2021

  • Alþingiskosningar 21. september
  • Skipað í nefnd sem vinnur úttekt á kostum og göllum kvótakerfisins og mögulegum úrbótum.
  • Undirbúningur fyrir slembivalið borgaraþing hefst.

2022

  • Úttekt á kvótakerfinu birt að vori og opið umsagnaferli hefst.
  • Umsagnaferli lýkur að hausti og slembivalið borgaraþing hefur störf.

2023

  • Slembivalið borgaraþing lýkur störfum að hausti og leggur fram tillögur að breytingum á kvótakerfinu.

2024

  • Þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur borgaraþings.
  • Alþingi afgreiðir tillögur að breytingum á kvótakerfinu í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu.