Svar Vinstri-grænna

Í stefnu VG um lýðræðismál segir m.a. að gera eigi róttækar lýðræðisumbætur og auka bæði vald almennings og áhrif hans á ákvarðanir stjórnvalda. Jafnframt þurfi að tryggja aðgengi almennings að upplýsingum og að málskotsréttur sé milliliðalaust í höndum kjósenda. Markmiðið sé að stuðla að valddreifingu, jöfnuði og sjálfbærni. Í tengslum við þetta má nefna að í sambandi við þá stjórnarskrárvinnu sem átti sér á kjörtímabilinu var m.a. efnt til rökræðukönnunnar hvers niðurstöður voru nýttar í frumvarpi sem Katrín Jakobsdóttir lagði fram á síðasta þingi. VG telur að skoða mætti að nýta það fyrirkomulag sem og þau sem Alda nefndi í fyrirspurn sinni, nefnilega opið umsagnarferli, slembivalið borgaraþing og þjóðaratkvæðagreiðslu og jafnvel aðrar útfærslur til að taka auðlindamál, þar með talið sjávarútvegsmál, til umræðu á næsta kjörtímabili. Þar er mikilvægt að horfa á auðlindamálin breitt því ljóst er að sömu spurningar eiga að hluta til um landnýtingu, orkunýtingu og aðra auðlindanýtingu eins og nýtingu sjávarauðlindarinnar.

Að öðru leyti koma helstu stefnumál VG í sjávarútvegsmálum fram í stefnu hreyfingarinnar um auðlindir hafs og stranda. Þar er m.a. lögð áhersla á umhverfismál og sjálfbærni, tímabundin nýtingarleyfi, nýliðun, hagsmuni minni sjávarbyggða, smábáta og minni útgerða, 5,3% kerfið, innlenda fiskvinnslu, tengda aðila, auðlindarentu og verðlagningarkerfi fiskveiða.