Píratar fagna frumkvæði Öldu, félags um sjálfbærni og lýðræði um tillögu að lýðræðislegri sáttaleið um kvótakerfið, sem hefur vissulega verið bitbein deilna og átaka í samfélaginu.
Nauðsynlegt er að ná sátt um sjávarútveg meðal þjóðarinnar allrar. Píratar telja forsendu sáttarinnar að eignarhald þjóðarinnar á sjávarauðlindinni sé tryggt í gegnum almennt auðlindaákvæði (34.gr.) nýju stjórnarskrárinnar. Auðlindaákvæðið tryggir fjögur grundvallarsjónarmið sem sjávarútvegsstefna Pírata hverfist um:
● Tryggt eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni
● Að auðlindarenta við hagnýtingu renni að fullu til þjóðarinnar
● Að veiðiheimildir séu tímabundnar
● Að jafnræðis sé gætt við úthlutun heimilda
Fimmta grundvallarsjónarmið Pírata er að sjálfbærni í sjávarútvegi sé tryggð með sjálfstæðri, vísindalegri ráðgjöf sem byggist á vönduðum hafrannsóknum án allra pólitískra afskipta.
Píratar eru reiðubúnir til þátttöku í lýðræðis- og sáttaferli um sjávarútveg, en benda um leið á eftirfarandi:
Íslendingar hafa þegar samþykkt í lýðræðislegri þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 að taka skuli upp 34.gr. nýju stjórnarskrárinnar og þar með flest grundvallarsjónarmið Pírata um sjávarútvegsauðlindina sem byggjast á henni.
Nauðsynleg forsenda þess að lýðræðisleiðin sé raunhæf og beri árangur er að lokamarkmiðið sé tryggt. Að meitlað sé í stein að tillögur slembivalda Borgaraþingsins séu bornar undir þjóðina í lok kjörtímabils og að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar verði virt.
Við leggjum því til að inn í lýðræðisleiðina verði bætt að Alþingi samþykki ferlið í heild sinni strax í upphafi kjörtímabils. Að upphafleg nefnd verði þverpólitísk, með sérfræðingum og öllum hagaðilum, þ.m.t. sjómönnum og sveitarfélögum sjávarbyggða, innanborðs. Þá er nauðsynlegt að Alþingi skuldbindi sig frá upphafi til að virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
Við Íslendingar upplifum mörg vantraust og uppgjöf gagnvart meðferð stjórnvalda við niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðsla í mikilvægum málum og teljum því mikilvægt að tryggja í upphafi að þjóðaratkvæðagreiðslan verði bindandi. Íslendingar höfðu mikið fyrir því með þjóðfundi, stjórnlagaráði og lýðræðislegum sáttaleiðum að innleiða nýja stjórnarskrá en Alþingi stóð í vegi fyrir því.
Það er greinilegt af skoðanakönnunum að vilji þjóðarinnar stendur til breytinga á kvótakerfinu. En sá vilji var líka greinilegur í stjórnarskrármálinu. Þess vegna teljum við Píratar nauðsynlegt að læra af reynslunni og tryggja lokamarkmiðið strax í upphafi.
Hér er stefna Pírata í sjávarútvegsmálum í heild sinni ásamt greinargerð.