Svar Samfylkingar

Leið Öldu, félags um sjálfbærni og lýðræði er um margt áhugaverð, og við í Samfylkingunni teljum þegar um svo stórt hagsmunamál þjóðarinnar sé að ræða, sem nauðsynlegt er að ná aukinni sátt um, sé bein aðkoma hennar sannarlega mikilvæg. Það væri vert að skoða hana frekar og ræða innan flokksins.

Vaxandi munur á kjörum fólksins í landinu er meðal annars drifinn áfram af óréttlátu fiskveiðistjórnunarkerfi sem færir í raun fáum einstaklingum nýtingu á gjöfulum auðlindum langt inn í framtíðina – milli kynslóða – án þess að þjóðin fái sanngjarnan skerf af eign sinni. Samfylkingin vill þess vegna nýja stjórnarskrá með skýru auðlindaákvæði.

Í samþykktri stefnu Samfylkingarinnar kemur fram að flokkurinn einsetur sér að tryggja að hagsmunir þjóðarinnar og almennings verði ofan á og að fullt gjald verði innheimt fyrir fiskveiðiauðlindina. Samfylkingin telur einföldustu leiðina að því marki felist í árlegri innköllun hóflegs hluta aflaheimilda og útboði nýtingarleyfa til takmarkaðs tíma. Þannig skilum við auðlindarentunni til réttmæts eiganda, almennings. Samfylkingin styður áframhaldandi hagræðingu í sjávarútvegi en geldur varhug við óhóflegri samþjöppun eignarhalds í greininni. Gæta þarf að jafnvægi milli hagkvæmnisjónarmiða og samfélagslegra markmiða um atvinnu- og byggðaþróun og herða á lögum um hámark aflahlutdeildar einstakra eða tengdra útgerðaraðila svo þau virki sem skyldi. Kanna skal kosti þess að leyfa sveitarfélögum sem fá úthlutað byggðakvóta að leigja frá sér heimildir og nýta afraksturinn til annarrar atvinnuuppbyggingar með það fyrir augum að auka fjölbreytni í atvinnulífi.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *